Ég óska eftir girnilegu, safaríku, fjölbreyttu grænmeti og ávöxtum.

Bara svona ef einhver er að framleiða slíkt. Virðist ekki vera hægt að fá grænmeti og ávexti hér í &/#&#"&$!"/#&$% Búðardal nema í undantekningartilfellum snemma á föstudagsmorgnum og eitthvað fram eftir degi. En ég tek það fram, það er ekki nýtt grænmeti, kannski hér jú, en af lagernum í bænum??? NEI.

Ég tók mig til áðan og skrifaði ávaxtabílnum mail í von um að þeir sendi út á land til einstaklinga sem sjá ekki grænmeti og ávexti nema á harðahlaupum út úr kjörbúðinni af myglu.

Já ég er orðin nett pirruð á þessu. Mér leiðist að þurfa að sækja mér heillegan lauk ofan í fulla körfu af spíruðum. Mér leiðist að þurfa að leita að einni heilli papriku innan um fulla körfu af illa krumpuðum og mygluðum. Mér leiðist að reyna að finna mér óskemmt epli í fullri körfu af götóttum, brúnum og mjúkum. Mér finnst þetta ekki einu sinni hundum bjóðandi sumt af því sem þarna er. Hver vill kaupa gulrætur sem liggja í gulrótarsafa ónýtra gulróta, eða salathaus sem er smurður grænu slími og er vægast sagt ljótur.

Ég veit að útlitið skiptir ekki öllu máli, heldur það sem býr hið innra, en þegar maður hefur rekið sig á það 871 sinni að maturinn er skemmdur sem maður er að kaupa, hættir maður að nenna að standa í því að reyna að versla í heimabyggð.

Þá er ég búin að pústa smá hér og viti menn mér líður ekkert betur. Ég hef talað nokkrum sinnum við starfsfólkið um þetta og vita þær alveg af þessu og finnst þetta jafn leiðinlegt og mér. En grænmetið kemur bara mjög aldrað til þeirra. Hef líka kvartað yfir þessu til hærri setta í bænum hjá Samkaupum en þeir vilja ekki kannast við að gamalt hráefni sé sent út á land. Humpf. En hvað þá um allar stæðurnar sem koma inn á milli með hinum og þessum vörum sem eru alveg að vera útrunnar í bænum einhversstaðar. Og útsöluvörurnar úr öðrum búðum sem sendar eru hingað og reynt að selja hér, (ég segi nú ekki á uppsprengdu verði, þar sem ég veit ekkert um það og ætla mér ekki að fara að verða ósanngjörn á opnum vef.)

En annars er allt ágætt að frétta. Ingvar enn heima og við ekki komin með ógeð á hvoru öðru, þótt við séum búin að vera saman í áratug.

Leikfélagsfundur í kvöld og vona ég að sem flestir mæti svo að hægt verði að fara að æfa, ég býst nú samt við að ég þurfi að snúa upp á handlegginn á nokkrum í viðbót.

Verið sæl.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband